Um mig

kristjan

Um mig.

Fullu nafni heiti ég Kristján Hreinn Stefánsson, fæddur 29. apríl 1944 í gamla torfbænum í Gilhaga, sem er í Lýtingsstaðahreppi hinum forna í Skagafirði, og er ég alltaf kenndur við þann bæ; enda hef ég átt þar heimili lengst ævinnar.

Ekki dvaldi ég þó lengi undir torfþaki því sumarið 1944 var flutt í nýbyggt steinhús neðan við gamla bæjarhólinn, og þar ólst ég upp.

Konan mín heitir Rósa Helgadóttir, fædd í Búðarnesi í Hörgárdal 30. ágúst 1943, ættuð úr Öxnadal, ólst upp í Skíðadal, dvaldi og bjó lengi í Svarfaðardal. En fyrir okkar kynni var hún búin að koma til manns einni stúlku og þremur drengjum, sem dreifa sér eins og farfuglar um Evrópulönd og höf.

Að loknu hefðbundnu barnaskólanámi, og nokkurra ára dvöl heima, hleypti ég heimdraganum og lauk búfræðinámi frá Hvanneyri vorið 1967.

Fór því næst til Akureyrar í járnsmíði og starfaði við járniðnað, vélavinnu og vélaviðgerðir um árabil, en alltaf við bústörf meðfram annarri vinnu. Og frá Akureyradvöl minni er einnig til sonur minn Kristján Vilmundur járniðnaðarmaður, fæddur 26. apríl 1975.

Á árunum 1975 til 1980 byggði ég mér íbúðarhús í Gilhaga, með áætlanir um fjárbúskap og ferðaþjónustu þar í auknum mæli, en örar breytingar á aðstæðum urðu þess valdandi, að við ákváðum að hætta við það.

Seldum við kvóta og bústofn, og fluttum árið 1990 í íbúð að Laugavegi 13 efri hæð, í hjarta héraðsins Varmahlíð.

Frá barnæsku hef ég leikið á hljóðfæri, heimilisorgel í fyrstu, síðar harmonikku og hljómborð hverskonar, og byrjaði að leika fyrir dansi opinberlega 10 ára gamall í minni heimasveit.

Ég hef í mjög litlum mæli sótt námskeið í tónlist, stundaði tímabundið nám í tónfræði, er annars sjálfmenntaður á því sviði. En mjög lengi hef ég komið nálægt skemmtunum hverskonar, hef samið ógrynni af nefndalýsingum og annálum fyrir þorrablót, afmæli og hverskyns mannamót, sjórna samkomum og þá almennum söng með undirleik mínum.

Og á mínum síðustu árum í Gilhaga var ég kominn í þrot með tíma þann sem aflögu er í félagsmál, og fór þá í mikinn niðurskurð. Ég hætti að koma á hestbak, (var uppalinn á hesti), ég hætti að spila bidds, og ég hætti að tefla skák, og við þetta rýmkaðist gríðarlega með tímann.

Ég starfaði um árabil sem skemmtanastjóri hjá Samvinnuferðum, og dvaldi þá meðal annars á Ítalíu, Portúgal, og síðast og lengst í Benidorm á Spánarströnd, allt þar til sú ágæta ferðaskrifstofa Samvinnuferðir/Landsýn,,fór á hausinn".

Veturinn 1962 byrjaði ég að syngja í Karlakórinn Heimi. Hef ég sungið þar síðan alltaf þegar ég hef verið á heimaslóðum, og farið margar ógleymanlegar ferðir um ókunnar slóðir á íslenskri, sem og erlendri grund. Þáttöku minni í þeim félagsskap lauk svo á vordögum 2006, og ákvað ég þá að nú væri nóg komið.

En nánari upplýsingar um þann ágæta félagsskap eru á slóðinni; www.heimir.is

Í ágúst 2008 fluttum við svo til Akureyrar eftir 20 ára dvöl í Varmahlíð, og settum þar aftur saman heimili á Lækjartúni 4, þá var ég búinn að eignast atvinnuhúsnæði að Frostagötu 1 b, og hlaut það fljótt nafnið Hreiðrið.

Þar fer fram starfsemi af mörgum toga, en þó yfirgnæfandi mest er það uppstoppun dýra og fugla, og eftirspurn eftir slíku er nánast orðin meiri en ég get annað, en sumartímanum hef ég helst ekki varið í slíkt. Á vordögum 2014 er ég samkvæmt mínum bókum að afhenda kindarhaus með afhendingarnúmerið 250.

Nú erum við búsett að Drekagili 9, 603 Akureyri.

Árum saman hef ég verið félagsmaður í þeim ágæta félagsskap sem ber nafnið Drangeyjarfélagið, eins og ætla má af nafninu, er það félagsskapur fólks sem sinnir um og stundar Drangeyjarútveg margskonar, uppbyggingu og viðhaldi á sæluhúsi, lendingaraðstöðu og fleiru, sem og nytjum á veiðihlunnindum, eggjum og lunda og svo ferðaþjónustu.

Hefi ég öll sumur um langa hríð stundað lundaveiði, bæði þar sem og í Grímsey á Steingrímsfirði, en á árum áður var ég við grenjavinnslu langtímum saman vor hvert í minni heimasveit; var byrjaður að fara með byssu og þá við rjúpnaveiði nánast í barnæsku.

Og þá hafa veiðistöngin og silunganetið verið verið mínir ferðafélagar frá því að ég hafði afl til að handfjalla líkt, vil ekki endilega kalla mig veiðimann, heldur fyrst og fremst útivistarmann og unnanda okkar villtu og heilnæmu náttúru.

Ennþá er ég að leika á hljóðfæri við mjög fjölbreytileg tækifæri og athafnir, eins og til dæmis; giftingu í Drangey, varðelda á ættarmótum, undir álfadans um áramót, vikivaka og þjóðdansa, sálma og sönglög í kirkjunni, í samverum eldri borgara, í rútubílum og á náttstöðum á ferðalögum, undir réttarvegg á haustdögum. Og svo fyrir almennum dansi á Íslandi og um víða veröld, því ég hefi heimsótt að minnsta kosti 15 lönd í þremur heimsálfum, og oftar en ekki er nikkan með í för.

Ég hef um langn aldur haldið dagbækur, og alla tíð skrifað hjá mér margt fróðlegt og skemmtilegt, og ákvað í tilefni merkra timamóta í apríl 2014 að láta loks verða af því að gefa út á prenti eitthvað úr mínum sjóði þess efnis. Kom strax í ljós við samantekt á slíku að til væri meira en heppilegt þótti að hafa í einni bók, þannig að nú árið 2014 kemur út ,,Stökur, ljóð og sagnasafn” fyrsta bók, um framhald mun því verða síðar.

Hér á heimasíðunni gefur að líta örlítið sýnishorn af iðju minni í dag sem og fyrr á tíð:
Á hverri síðu eru svo nánari upplýsingar um margt það sem mér við kemur.

Ef þú ert með einhverjar spurningar eða verkefni sem þig vantar að fá leyst,
sendu mér þá endilegaThis e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og ég svara eftir bestu getu

Í rollur var ríkust mín þráin
mér reynist sú hvöt nú dáin.
Ég fæddist í sveit
í fyrstu þar leit
kýrrassa eins og Káinn.

Nú forsendum fylgi ég gefnum
og fagna því nýjum stefnum.
Við tölvuna sit
með flókin forrit
og þvælist á Veraldarvefnum.