Tónskáld

Ég hef samið allmörg tónverk sem munu flokkast undir yfirskriftina alþýðulög. Þau þykja henta vel til söngs, og hafa verið sungin af einsöngvurum, kórum og allt þar á milli. Lög þessi hef ég útsett, mörg hver fyrir fjölraddaðan og einraddaðan söng, með píanóundirleik. Einnig hef ég samið nokkur harmonikkulög; þ.e. lög
sem fara vel í harmonikkuleik, en þau má að sjálfsögðu leika á hin ýmsustu hljóðfæri.

Cd11Ég gaf út í maí/júní 1995 hljómdiskinn og snælduna Mitt hjartans mál. Þar er að finna 15 sönglög við ljóð eftir mig. Öll eru þau með danshljómsveitarundirleik nema eitt, það er sálmurinn: Ljósið á kertinu sem lifir, þar sem leikið er undir sönginn á orgel Glaumbæjarkirkju. Einnig kom út á haustdögum 1995 nótnabókin,
Mitt hjartans mál. Þar eru þau 15 lög sem á hljómdisknum eru, að þremur lögum viðbættum. Lögin eru útsett fyrir fjölbreytilega möguleika í söng, einsöng, tvísöng, þrísöng, fjórsöng, söng karlakóra og blandaðra kóra. Allmörg laganna eru með skrifuðum nótum fyrir píanóundirleik.

Við útgáfu á þessum diski, Mitt hjartans mál, var það mín ákvörðun að allt það sem þar er að finna væri,,heimatilbúið", skagfirskt, og mun það vera í fyrsta sinn sem það var gert utan Reykjavíkur eða Akureyrar. útgefandi var ég sjálfur, upptökur fóru fram hjá Hilmari Sverrissyni Sauðárkróki, prentverk og myndvinnsla var unnin hjá Sást h/f Sauðárkróki, undirleikur og söngur var í höndum okkar heimamanna.
Þá var það einnig í þessari útgáfu, sem að sást fyrst á prenti nafn sem síðar varð flestum Íslendingum afar kunnuglegt, Álftagerðisbræður.

Það má einnig með sanni segja að þá hæfist farsæll og mjög vinsæll söngferill þeirra bræðra saman.

cd1Að ári liðnu, eða í maí/júní 1996 gaf ég út hljómdiskinn og snælduna Minningamál. Þar er að finna 17 lög eftir mig. Þar er undirleikurinn fjölbreytilegri en í fyrri útgáfunni. Þar eru 8 lög með danshljómsveitar undirleik líkt og í fyrri útgáfunni. Þá eru 5 gömludansalög leikin á harmonikku, ekki sungin og 4 lög eru sungin, með píanóundirleik. Allir textar í þessari útgáfu eru einnig eftir mig.