Vísnahornið

Hér getur að líta sýnishorn af vísum mínum, sem verða til í dagsins önn, eða sem ég heyri og sé eftir aðra, og mér finnst eiga erindi við fjöldann.

------------------------------

Nú á janúardögum 2015 hefur æði oft verið veruleg hálka, og örðug göngufólki;

Sérhver lifa mun og má

meður sinni elli,

og hraustur velli halda á

hálu lífsins svelli.

Svo er í fréttum sagt hér frá

að svellin fólkið hrelli,

enda margan má hér sjá

mann sem naut á svelli.

Víst má konu víða sjá

- vægan dóm um felli -

áfram tíðum álpast þá

eins og belju á svelli.

Trítla börnin til og frá

títt með leikjasmelli,

líkjast kannski krakkar þá

kálfunum á svelli?

 ------------

Bókin Stökur, ljóð og sagnasafn kom út nú á haustdögum 2014

 

Enginn tekur á sig krók

eftir ,,Stökum, ljóðum sögum

kveiktu á tölvu, kauptu bók

sem kemur heim á næstu dögum.

 

Miðvikudagur 5. nóvember 2014.

 

Rigning og aðeins slydda undir hádegið, frysti með kvöldinu og því launhált á götum og gangstéttum.

Regnsins þrálátt lamstur lemur,

lauf af trjám við upphaf dagsins,
Kári jafnan sjálfur semur
synfoníu veðurlagsins.
--------------------
Getur verið þörf á því
að þjarma svona að gróðri og byggðum,
samt er fegurð fólgin í
                                 flestum þessum veðrabrigðum.

 

Hamingju óskir á afmælisdag.

 

Alltaf fram mun tíminn tifa

tekur skref á dag,

haltu áfram lengi að lifa

og leiktu við þinn hag.

 

Föstudagur 14. nóvember 2014.

Mild og hljóðlát myrkvuð kvöldin

morgunn hlýr og rakur er,

semur þátt á söguspjöldin

sumartíð í nóvember.

 

Upp úr dimmri djúpri firð
dagsins mynd nú stígur öll
gulli brydd í grafarkyrrð
                                 glitra snævi kögruð fjöll.

 

Á vetrarsólstöðum 2014.

 

Langt á vetur liðið er

linnir ekkert veðra erjum,

hækka sól á himni fer

hænufet á degi hverjum.

-------------

 

Upp himinveg halda mun sól

allt hlánar, sem frostbitran kól;

með bjartsýni og þori

í bið eftir vori

höldum við heilög jól.

-----

Sá er oss sorgir fól

sigra og gleðitár,

færi nú friðarjól

fagnaðrríkt ár.